Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

ÓHHkr ch. 141

Óláfs saga helga (in Heimskringla) 141 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (ÓHHkr ch. 141)

HeimskringlaÓláfs saga helga (in Heimskringla)
140141142

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Þóroddur Snorrason hafði dvalist í Noregi að ráði Ólafs konungs þá er Gellir Þorkelsson fékk leyfi að fara til Íslands svo sem fyrr var ritið og var hann þá með Ólafi konungi og undi illa ófrelsi því er hann skyldi eigi fara ferða sinna þannug er hann vildi.


Öndurðan vetur þann er Ólafur konungur sat í Niðarósi lýsti konungur því að hann vill menn senda til Jamtalands að heimta skatt. En til farar þeirrar voru menn ófúsir því að af lífi voru teknir sendimenn Ólafs konungs þeir er hann hafði fyrr sent, Þrándur hvíti og þeir tólf saman, svo sem fyrr var ritið, og höfðu Jamtur síðan haldist í lýðskyldu við Svíakonung.


Þóroddur Snorrason bauðst til þeirrar farar því að hann hirti þá alllítt hvað yfir hann gekk ef hann færi sjálfráði. Það þekktist konungur og fóru þeir Þóroddur tólf saman. Þeir komu fram austur á Jamtaland og sóttu heim þann mann er Þórar er nefndur. Hann var þar lögmaður og metorðamaður mestur. Þeir fengu þar góðar viðtökur.


En er þeir höfðu þar dvalist litla hríð þá báru þeir upp erindi sín fyrir Þórar. Hann segir að fyrir þeim svörum réðu engum mun miður en hann aðrir landsmenn og höfðingjar og kvað þings skyldu til kveðja. Var svo gert að þingboð var upp skorið og stefnt þing fjölmennt. Fór Þórar til þings en sendimenn dvöldust meðan að hans.


Þórar bar upp mál þetta fyrir alþýðu en það kom ásamt með öllum að þeir vildu engan skatt gjalda Noregskonungi en sendimennina vildu sumir hengja láta en sumir láta þá hafa til blóts. En hitt var afráðið að þeim skyldi halda þar til þess er sýslumenn Svíakonungs kæmu þar, skyldu þeir þá stafa fyrir þeim slíkt er þeir vildu með ráði landsmanna, en gera hitt yfirbragð á að sendimenn væru vel haldnir og þeir væru fyrir því dvaldir að þeir skyldu skattsins bíða og skyldi skipta þeim á vistir tveim og tveim saman.


Þóroddur var með annan mann að Þórars. Þar var jólaveisla mikil og samburðaröl. Margir voru bændur þar í þorpinu og drukku þeir allir samt um jólin. Annað þorp var þaðan skammt. Þar bjó mágur Þórars, ríkur og auðigur. Hann átti sér son roskinn. Þeir mágar skyldu drekka hálf jól að hvors þeirra og fyrr að Þórars. Þeir mágar drukkust á en Þóroddur og bóndason og var kappdrykkja og um kveldið kappmæli og mannjafnaður með Norðmönnum og Svíum og því næst um konunga þeirra, bæði þá er fyrr höfðu verið og þessa er nú voru, og svo þau skipti er verið höfðu landa í milli í manndrápum og ránum þeim er verið höfðu milli landa.


Þá mælti búandason: "Ef vorir konungar hafa fleiri menn látið þá munu sýslumenn Svíakonungs jafna það með tólf manna fjörvi þá er þeir koma sunnan eftir jólin og vitið þér ógerla veslir menn til hvers þér eruð dvaldir."


Þóroddur hugsaði sitt mál og margir drógu glott að og fundu þeim hneyksliyrði og svo konungi þeirra. Fór það þá óleynt er ölið mælti með þeim Jamtum er Þóroddur hafði áður ekki grunað.


Eftir um daginn tóku þeir Þóroddur öll klæði sín og vopn og lögðu sér til handargagns. Eftir um nóttina er menn voru sofnaðir hljópu þeir braut til skógar. Um morguninn eftir er menn urðu varir við brauthlaup þeirra fóru menn eftir þeim með sporhunda og hittu þá í skógi þar er þeir höfðu fólgist og höfðu þá heim og í skemmu. Þar var gröf djúp. Voru þeir þar í látnir og hurð læst fyrir. Höfðu þeir lítinn mat og engi klæði nema sín.


Og er komu mið jól fór Þórar og allir frelsingjar með honum til mágs hans. Skyldi hann þar drekka hinn efra hlut jólanna. Þrælar Þórars skyldu gæta grafarinnar. En þeim var þá ætlaður gnógur drykkur en þeir stilltu lítt drykkjunni og gerðu sig ölóða þegar um kveldið. En er þeir þóttust fulldrukknir þá mæltu þeir sín í milli er mat skyldu færa grafarmönnum að þá skyldi ekki skorta.


Þóroddur kvað kvæði og skemmti þeim þrælunum en þeir kváðu hann mundu vera virktamann og gáfu honum kerti mjög mikið og log á. Þá komu þeir þrælarnir út er áður voru inni og kölluðu ákaflega að hinir skyldu inn fara en þeir voru hvorirtveggju ölóðir svo að þeir luku hvorki aftur gröfina né skemmuna.


Þá ristu þeir Þóroddur í sundur í strengi feldi sína og knýttu saman og gerðu hnoða af endanum og köstuðu upp á skemmugólfið. Það vafðist um örkufót og varð fast. Þeir leituðu þá til upp að fara. Lyfti Þóroddur förunaut sínum upp til þess er hann stóð á öxlum honum. Síðan las hann sig upp í gegnum glugginn. Þá skorti eigi reip í skemmunni og lét hann ofan síga móti Þóroddi. En er hann skyldi draga Þórodd upp þá fékk hann hvergi komið honum. Þá mælti Þóroddur að hann skyldi kasta reipinu yfir bita þann er var í húsinu en gera lykkju á endanum, bera þar í viðu og grjót svo að það væri meir en jafnvægi hans. Hann gerði svo. Fór þá sigin ofan í gröfina en Þóroddur upp. Þeir tóku sér klæði í skemmunni sem þeir þurftu. Þar voru inni hreinstökur nokkurar og skáru þeir af fitjarnar og bundu öfugar undir fætur sér. En áður þeir færu í brott þá lögðu þeir eld í kornhlöðu mikla er þar var og hljópu síðan í brott í niðamyrkri. Hlaðan brann og mart annarra húsa í þorpinu. Þeir Þóroddur fóru alla nótt á eyðimörk og fálust að degi.


Um morguninn var saknað þeirra. Var þá farið með sporhunda að leita þeirra á alla vega frá bænum. En hundarnir röktu sporin aftur til bæjarins því að þeir kenndu af hreinsfitjunum og röktu þangað sporið sem klaufirnar höfðu vitað af hreinsfitjunum og varð ekki leitað þeirra.


Þeir Þóroddur fóru lengi á eyðimörkum og komu eitt kveld að litlum húsabæ og gengu þar inn. Þar sat inni karlmaður og kona við eld. Nefndist hann Þórir og segir að sú var kona hans er þar sat og svo að þau áttu húsakot það. Bauð bóndi þeim þar að vera en þeir þágu það. Hann segir þeim að því var hann þar kominn að hann hafði flúið úr byggðinni fyrir víga sakir. Var þeim Þóroddi unninn góður beini. Mötuðust þau öll við eldinn. Síðan var búið um þá Þórodd þar í seti og lögðust þeir til svefns. En þá var enn logi á eldinum. Þá sá Þóroddur að þar gekk fram maður úr öðru húsi og hafði hann engan mann séð jafnmikinn. Sá maður hafði skarlatsklæði búin gullhlöðum og var hinn veglegsti sýnum. Þóroddur heyrði að hann ávítaði þau um það er þau tóku við gestum en höfðu varla sér matbjörg.


Húsfreyja svarar: "Ver þú eigi reiður bróðir, sjaldan hefir þetta að móti borið. Veittu þeim heldur nokkura gagnsmuni því að þú ert betur til fær en við."


Þóroddur heyrði þann mikla mann nefndan Arnljót gellina og svo að húsfreyja var systir hans. Þóroddur hafði heyrt getið Arnljóts og það með að hann var hinn mesti stigamaður og illvirki. Sváfu þeir Þóroddur um nóttina því að þeir voru mæddir áður af göngu.


En er lifa mundi þriðjungur nætur þá kom þar Arnljótur, bað þá upp standa og búast ferðar sinnar. Þeir Þóroddur stóðu þegar upp og klæddust. Var þeim gefinn dagverður. Síðan fékk Þórir skíð hvorumtveggja þeirra. Arnljótur réðst til ferðar með þeim. Steig hann á skíð. Þau voru bæði breið og löng. En þegar er Arnljótur laust við geislinum þá var hann hvar fjarri þeim. Þá beið hann og mælti að þeir mundu hvergi komast að svo búnu, bað þá stíga á skíðin með sér. Þeir gerðu svo. Fór Þóroddur nærri honum og hélt sér undir belti Arnljóts en förunautur Þórodds hélt honum. Skreið Arnljótur þá svo hart sem hann færi laus. Þeir komu til sáluhúss nokkurs er þriðjungur var af nótt, drápu sér þar eld og bjuggu til matar.


En er þeir mötuðust þá mælti Arnljótur, bað þá engu niður kasta af matnum, hvorki beinum né mola. Arnljótur tók úr serk sínum silfurdisk einn og mataðist þar af. En er þeir voru mettir þá hirti Arnljótur leifar þeirra. Síðan bjuggust þeir til rekkna. Í annan enda hússins var loft uppi á þvertrjám. Fóru þeir Arnljótur upp á loftið og lögðust þar til svefns. Arnljótur hafði höggspjót mikið og var gullrekinn falurinn en skaftið svo hátt að tók hendi til falsins en hann var sverði gyrður. Þeir höfðu bæði vopn sín og klæði uppi á loftinu hjá sér. Arnljótur bað þá vera hljóðsama. Hann lá fremstur á loftinu.


Litlu síðar komu þar til hússins menn tólf. Það voru kaupmenn er fóru til Jamtalands með varning sinn. En er þeir komu í húsið gerðu þeir um sig glaum mikinn og voru kátir, gerðu fyrir sér elda stóra. En er þeir mötuðust þá köstuðu þeir út beinum öllum. Síðan bjuggust þeir til rekkna og lögðust niður í seti þar við eldinn.


En er þeir höfðu litla hríð sofið þá kom þar til hússins tröllkona mikil. En er hún kom inn sópaðist hún um fast, tók beinin og allt það er henni þótti ætt og sló í munn sér. Síðan greip hún mann þann er næst henni var, reif og sleit allan, kastaði á eldinn. Þá vöknuðu þeir aðrir og við illan draum og hljópu upp en hún færði til heljar hvern að öðrum svo að einn var eftir á lífi. Hljóp sá innar undir loftið og kallar til hjálpar sér ef nokkuð væri þess í loftinu er honum mundi duga. Arnljótur seildist til hans og tók í herðar honum og kippti honum upp í loftið. Þá slóst hún fram að eldinum og tók að eta mennina þá er steiktir voru.


Þá stóð Arnljótur upp og greip höggspjót sitt og setti milli herða henni svo að út hljóp oddurinn um brjóstið. Hún brá við hart og kvað við illilega og hljóp út. Arnljóti varð laust spjótið og hafði hún það með sér á brott. Arnljótur gekk til og ruddi út hræjum manna, setti fyrir skálann hurð og gætti því að hún hafði það allt frá brotið er hún hljóp út. Sváfu þeir þá það er eftir var næturinnar.


En er lýsti stóðu þeir upp, átu þá fyrst dagverð sinn. En er þeir höfðu matast mælti Arnljótur: "Nú munum vér hér skiljast. Skuluð þér nú fara eftir akbraut þessi er þeir fóru í gær hingað kaupmennirnir en eg vil leita spjóts míns. Mun eg hafa að verkkaupi það er mér þykir fénýtt af fé því er þessir menn hafa átt. Skaltu Þóroddur bera Ólafi konungi kveðju mína og seg honum það að hann er svo maður að mér er mest forvitni á að hitta. En kveðja mín mun honum þykja einskis verð."


Tók hann upp silfurdiskinn og strauk með dúknum og mælti: "Færðu konungi disk þenna, seg að það er kveðja mín."


Síðan bjuggust þeir til ferðar hvorirtveggju og skildust þeir að svo búnu. Fór Þóroddur og þeir förunautar og svo sá maður er undan hafði komist af þeim förunautum, kaupmönnum. Fór Þóroddur til þess er hann fann Ólaf konung í Kaupangi og segir honum allt frá ferðum sínum, bar honum kveðju Arnljóts og færði honum silfurdiskinn.


Konungur segir að það var illa er Arnljótur hafði eigi farið á hans fund "og er skaði mikill er svo illt skyldi leggjast fyrir svo góðan dreng og merkilegan mann."


Þóroddur var síðan með Ólafi konungi það er eftir var vetrar og fékk þá leyfi af honum að fara til Íslands um sumarið eftir. Skildust þeir Ólafur konungur þá með vináttu.

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.