Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

ÓHHkr ch. 139

Óláfs saga helga (in Heimskringla) 139 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (ÓHHkr ch. 139)

HeimskringlaÓláfs saga helga (in Heimskringla)
138139140

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Þá er Finnur Árnason hafði litla hríð dvalist með Ólafi konungi var einnhvern dag að konungur kallar Finn til máls við sig og enn fleiri menn þá er hann var vanur að hafa við ráðagerðir sínar.


Þá tók konungur til máls og segir svo: "Sú ráðagerð staðfestist í skapi mér að eg ætla í vor að bjóða út leiðangri af landi öllu, bæði að liði og að skipum, og fara síðan með her þann allan er eg má til fá í mót Knúti hinum ríka því að eg veit um tilkall það, er hann hefir upp hafið til ríkis í hendur mér, að hann mun eigi ætla að hafa það fyrir hégómamál. Nú er þér það að segja Finnur Árnason að eg vil að þú farir sendiferð mína norður á Hálogaland og hafið þar útboð, bjóðið út almenningi að liði og að skipum og stefnið því liði til móts við mig til Agðaness."


Síðan nefndi konungur aðra menn til og sendi suma inn í Þrándheim en suma suður í land svo að hann lét þetta boð fara um allt land.


Það er að segja frá för Finns að hann hafði skútu og á nær þremur tigum manna en er hann var búinn fór hann ferðar sinnar til þess er hann kom á Hálogaland. Þá stefndi hann þing við búendur, bar þá upp erindi sitt og krafði leiðangurs. Bændur áttu í héraði skip stór leiðangursfær. Skipuðust þeir við orðsending konungs og bjuggu skip sín.


En er Finnur sótti norður á Hálogaland þá átti hann þing en sendi menn sína nokkura að krefja útboðsins þar er honum sýndist. Finnur sendi menn í Bjarkey til Þóris hunds, lét þar krefja leiðangurs sem annars staðar.


En er Þóri komu boð konungs þá bjóst hann til ferðar og skipaði af húskörlum sínum skip það er hann hafði haft áður um sumarið til Bjarmalands, bjó það með sínum eins kostnaði.


Finnur stefndi saman Háleygjum í Vogum, öllum þeim er norður voru þaðan. Kom þar saman um vorið lið mikið og biðu allir til þess er Finnur kom norðan. Var þar þá og kominn Þórir hundur. En er Finnur kom þá lét hann þegar blása til húsþings leiðangursliði öllu. En á þingi því sýndu menn vopn sín, svo var þá og rannsakað útboðið í hverri skipreiðu.


En er það var greitt þá mælti Finnur: "Þig vil eg að þessu kveðja Þórir hundur. Hver boð viltu bjóða Ólafi konungi fyrir aftöku Karla hirðmanns hans eða fyrir rán það er þú tókst fé konungs norður í Lengjuvík? Nú hefi eg umboð konungs til þessa máls en eg vil nú vita svör þín."


Þórir litaðist um og sá til hvorrartveggju handar sér standa marga menn alvopnaða, kenndi þar Gunnstein og fjölda annarra frænda Karla. Þá mælti Þórir: "Skjót eru boð mín Finnur að eg vil mál allt festa í konungs dóm, það er honum þykir að við mig."


Finnur svarar: "Hitt er nú vænst að þér sé minni virðingar af unnt því að nú mun verða að festa minn dóm á ef sættast skal."


Þórir segir: "Þá ætla eg enn allvel komið og skal það ekki undan draga."


Gekk þá Þórir fram til festu og skildi Finnur það mál fyrir allt.


Síðan segir Finnur upp sættina að Þórir skyldi gjalda konungi tíu merkur gulls en Gunnsteini og þeim frændum aðrar tíu merkur en fyrir rán og féskaða hinar þriðju tíu merkur "en gjalda upp nú þegar," segir hann.


Þórir segir: "Þetta er mikið fégjald."


"Hinn er annar kostur að lokið sé sætt allri," segir Finnur.


Þórir segir að Finnur mundi ljá honum þeirra fresta að hann leitaði lána af sveitungum sínum. Finnur bað hann gjalda þar í stað og þó umfram að Þórir skyldi fram selja menið það hið mikla er hann tók af Karla dauðum. Þórir kvaðst ekki men hafa tekið.


Þá gekk fram Gunnsteinn og segir að Karli hafði men á hálsi þá er þeir skildust "en þá var í brott er vér tókum lík hans."


Þórir segir að hann hefði ekki huga leitt um men það "en þótt vér hefðum nokkuð men þá mun það heima liggja í Bjarkey."


Þá setti Finnur spjótsoddinn fyrir brjóst Þóri og segir að hann skyldi þá fram selja menið. Þórir tók þá menið af hálsi sér og seldi Finni. Síðan sneri Þórir í brott og gekk út á skip sitt. Finnur gekk eftir honum út á skipið og mart manna með honum. Gekk Finnur eftir skipinu og tóku þeir upp rúmin. En við siglu sáu þeir undir þiljum niðri tunnur tvær miklar svo að þeim þótti mikil furða að. Finnur spurði hvað í tunnum þeim var. Þórir segir að þar lá í drykkur hans.


Finnur mælti: "Hví gefur þú oss eigi að drekka félagsmaður, svo mikinn drykk sem þér hafið?"


Þórir mælti við mann sinn að renna skyldi úr tunnunni í bolla. Síðan var þeim Finni gefið að drekka og var það hinn besti drykkur. Þá bað Finnur Þóri reiða féið. Þórir gekk eftir skipinu fram og aftur og talaði við menn ýmsa. Finnur kallaði, bað hann bera fram féið. Þórir bað hann ganga upp á land og kvaðst þar mundu greiða. Þá gekk Finnur á land upp og hans menn. Þá kom þar Þórir og greiddi silfur. Var þar reitt úr einum sjóð tíu merkur vegnar. Þá lét hann fram knýtiskauta marga. Var í sumum mörk vegin, sumum hálf eða aurar nokkurir.


Þá mælti Þórir: "Þetta er lánfé er ýmsir menn hafa léð mér því að uppi ætla eg skotsilfur mjög það er eg á."


Síðan gekk Þórir á skip út en er hann kom aftur reiddi hann silfur smám og smám. Þá leið á daginn.


En þegar er þinginu sleit þá gengu menn til skipa sinna og bjuggust til brottlögu. Tóku þá menn að sigla þegar er búnir voru. Kom þá svo að flestir menn höfðu siglt. Sá Finnur þá að þynntist liðið um hann. Kölluðu menn þá á hann og báðu hann verða búinn. Var þá enn eigi greiddur einn þriðjungur fjárins.


Þá mælti Finnur: "Seint gengur þó Þórir greiðslan. Sé eg að þér þykir mikið fyrir að greiða féið. Skal nú og kyrrt láta vera fyrst. Skaltu nú gjalda konungi það er eftir er."


Stóð þá Finnur upp.


Þórir segir: "Vel þykir mér það Finnur að við skiljum en vilja skal eg til hafa að gjalda þessa skyld svo að konungi þyki eigi vargoldið og báðum ykkur."


Þá gekk Finnur til skips síns og sigldi fram eftir liði sínu.


Þórir verður seint búinn úr höfninni. En er segl þeirra kom upp þá héldu þeir út um Vestfjörð og síðan á haf út og svo suður með landi að sær var í miðjum hlíðum eða stundum vatnaði land, lét svo ganga suður allt þar til er hann sigldi í Englandshaf og kom fram á Englandi, fór síðan á fund Knúts konungs og tók hann vel við honum.


Kom þá það upp að Þórir hafði þar óf lausafjár, hafði þar það fé allt er þeir höfðu tekið á Bjarmalandi hvorirtveggju og Karli. En í tunnum þeim hinum miklu þá var botn skammt frá hinum botni og var þar í millum drykkur en tunnan sjálf hvortveggi var full af grám skinnum og bjór og safala. Var Þórir þá með Knúti konungi.


Finnur Árnason fór með liði því til Ólafs konungs, segir honum allt frá ferð sinni og svo það að hann kvaðst hyggja að Þórir væri úr landi farinn og vestur til Englands á fund Knúts hins ríka "og ætla eg hann munu vera oss allóþarfan."


Konungur segir: "Trúi eg því að Þórir mun vera oss óvinur og þykir mér hann ávallt betri firr mér en nær."

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.