Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

ÓHHkr ch. 118

Óláfs saga helga (in Heimskringla) 118 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (ÓHHkr ch. 118)

HeimskringlaÓláfs saga helga (in Heimskringla)
117118119

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):


Ásbjörn átti langskip. Það var snekkja, tvítugsessa, stóð í nausti miklu. Eftir kyndilmessu lét hann setja fram skipið og bera til reiða og lét búa skipið. Þá stefndi hann til sín vinum sínum og hafði nær níu tigum manna og alla vel vopnaða. En er hann var búinn og byr gaf þá sigldi hann suður með landi og fara þeir ferðar sinnar og byrjar heldur seint. En er þeir sækja suður í land þá fóru þeir útleið meir en þjóðleið. Ekki varð til tíðinda um ferð þeirra fyrr en þeir komu að kveldi fimmta dag páska utan að Körmt. Henni er þannug farið að hún er mikil ey, löng og víðast ekki breið, liggur við þjóðleið fyrir utan. Þar er mikil byggð og víða er eyin óbyggð það er út liggur til hafsins. Þeir Ásbjörn lentu utan að eyjunni þar er óbyggt var.


En er þeir höfðu tjaldað þá mælti Ásbjörn: "Nú skuluð þér vera eftir hér og bíða mín en eg mun ganga upp á eyna á njósn hvað títt er í eyjunni því að vér höfum ekki um spurt áður."


Ásbjörn hafði vondan búnað og hött síðan, fork í hendi, gyrður sverði undir klæðum. Hann gekk á land upp og yfir á eyna. En er hann kom á nokkura hæð, þá er hann mátti sjá til bæjar á Ögvaldsnesi og svo fram í Karmtsund, þá sá hann mannfarar miklar bæði á sæ og á landi og sótti það fólk allt til bæjar á Ögvaldsnesi. Honum þótti það undarlegt. Síðan gekk hann heim til bæjarins og þar til er þjónustumenn bjuggu mat. Heyrði hann þá þegar og skildi ræður þeirra að Ólafur konungur var þar kominn til veislu, svo það með að konungur var til borða genginn.


Ásbjörn sneri þá til stofunnar en er hann kom í forstofuna þá gekk annar maður út en annar inn og gaf engi maður að honum gaum. Opin var stofuhurðin. Hann sá að Þórir selur stóð fyrir hásætisborðinu. Þá var mjög á kveld liðið. Ásbjörn heyrði til að menn spurðu Þóri frá skiptum þeirra Ásbjarnar og svo það að Þórir sagði af langa sögu og þótti Ásbirni hann halla sýnt sögunni.


Þá heyrði hann að maður mælti: "Hvernug varð hann Ásbjörn þá er þér rudduð skipið?"


Þórir segir: "Bar hann sig til nokkurrar hlítar og þó eigi vel þá er vér ruddum skipið en er vér tókum seglið af honum þá grét hann."


En er Ásbjörn heyrði þetta þá brá hann sverðinu hart og títt og hljóp í stofuna, hjó þegar til Þóris. Kom höggið utan á hálsinn, féll höfuðið á borðið fyrir konunginn en búkurinn á fætur honum. Urðu borðdúkarnir í blóði einu bæði uppi og niðri.


Konungur mælti, bað taka hann. Og var svo gert að Ásbjörn var tekinn höndum og leiddur út úr stofunni en þá var tekinn borðbúnaðurinn og dúkarnir og í brott borinn, svo líkið Þóris var í brott borið og sópað allt það er blóðugt var. Konungur var allreiður og stillti vel orðum sínum svo sem hann var vanur jafnan.


Skjálgur Erlingsson stóð upp og gekk fyrir konung og mælti svo: "Nú mun sem oftar konungur að þar mun til umbótar að sjá er þér eruð. Eg vil bjóða fé fyrir mann þenna til þess að hann haldi lífi sínu og limum en þér konungur skapið og skerið um allt annað."


Konungur segir: "Er eigi það dauðasök Skjálgur ef maður brýtur páskafrið og sú önnur er hann drap mann í konungs herbergi, sú hin þriðja er ykkur föður þínum mun þykja lítils verð er hann hafði fætur mína fyrir höggstokkinn?"


Skjálgur svarar: "Illa er það konungur er yður mislíkar en ellegar væri verkið hið besta unnið. En ef verk þetta konungur þykir yður í móti skapi og mikils vert þá vænti eg að eg þiggi mikið af yður fyrir þjónustu mína. Munu margir það mæla að yður sé það vel geranda."


Konungur segir: "Þótt þú sért mikils verður Skjálgur þá mun eg eigi fyrir þínar sakir brjóta lögin og leggja konungstignina."


Skjálgur snýst þá í brott og út úr stofunni. Tólf menn höfðu þar verið með Skjálgi og fylgdu þeir honum allir og margir aðrir gengu með honum í brott.


Skjálgur mælti til Þórarins Nefjólfssonar: "Ef þú vilt hafa vináttu mína þá leggðu allan hug á að maðurinn sé eigi drepinn fyrir sunnudag."


Síðan fer Skjálgur og menn hans og tóku róðrarskútu er hann átti og róa suður svo sem á mátti taka og komu í elding nætur á Jaðar, gengu þegar upp til bæjarins og til lofts þess er Erlingur svaf í. Skjálgur hljóp á hurðina svo að hún brotnaði að nöglum. Við það vaknar Erlingur og aðrir sem inni voru. Hann var skjótastur á fætur og greip upp skjöld sinn og sverð og hljóp til duranna og spurði hver þar færi svo ákaft. Skjálgur segir til sín og bað upp láta hurðina.


Erlingur segir: "Það var líklegast að þú mundir vera ef allheimslega fór, eða fara menn nokkurir eftir yður?"


Var þá látin upp hurðin.


Þá mælti Skjálgur: "Það vænti eg þótt þér þyki eg fara ákaflega að Ásbirni frænda þínum þyki ekki ofurskjótt þar er hann situr norður á Ögvaldsnesi í fjötrum og er það mannlegra að fara til og duga honum."


Síðan hafast þeir feðgar orð við. Segir þá Skjálgur Erlingi alla atburði um víg Sel-Þóris.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.