Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

SnSt, Gylf ch. 51

Snorri Sturluson, Gylfaginning 51 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (SnSt, Gylf ch. 51)

Snorri SturlusonGylfaginning
505152

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Þá mælti Gangleri: "Hver tíðindi eru að segja frá um
ragnarökkur? Þess hef eg eigi fyrr heyrt getið."



Hár segir: "Mikil tíðindi eru þaðan að segja og mörg. Þau hin
fyrstu að vetur sá kemur er kallaður er Fimbulvetur. Þá
drífur snær úr öllum áttum. Frost eru þá mikil og vindar
hvassir. Ekki nýtur sólar. Þeir vetur fara þrír saman og ekki
sumar milli. En áður ganga svo aðrir þrír vetur að þá er um
alla veröld orustur miklar. Þá drepast bræður fyrir ágirni
sakir, og enginn þyrmir föður eða syni í manndrápum eða
sifjasliti. Svo segir í Völuspá:




Bræður munu berjast

og að bönum verðast,

munu systrungar

sifjum spilla.

Hart er með höldum,

hórdómur mikill,

skeggjöld, skálmöld,

skildir klofnir,

vindöld, vargöld

áður veröld steypist.



Þá verður það er mikil tíðindi þykja að úlfurinn gleypir
sólina og þykir mönnum það mikið mein. Þá tekur annar
úlfurinn tunglið og gerir sá og mikið ógagn. Stjörnurnar
hverfa af himninum. Þá er og það til tíðinda að svo skelfur
jörð öll og björg að viðir losna úr jörðu upp, en björgin
hrynja, en fjötrar allir og bönd brotna og slitna.



Þá verður Fenrisúlfur laus. Þá geysist hafið á löndin fyrir
því að þá snýst Miðgarðsormur í jötunmóð og sækir upp á
landið. Þá verður og það að Naglfar losnar, skip það er svo
heitr. Það er gert af nöglum dauðra manna og er það fyrir því
varnanar vert ef maður deyr með óskornum nöglum að sá maður
eykur mikið efni til skipsins Naglfars, en goðin og menn
vildu seint að gert yrði. En í þessum sævargang flýtur
Naglfar. Hrymur heitir jötunn er stýrir Naglfari.



En Fenrisúlfur fer með gapandi munn og er hinn efri kjaftur
við himni en hinn neðri við jörðu. Gapa myndi hann meira ef
rúm væri til. Eldar brenna úr augum hans og nösum.
Miðgarðsormur blæs svo eitrinu að hann dreifir loft öll og
lög, og er hann allógurlegur, og er hann á aðra hlið úlfinum.



Í þessum gný klofnar himinninn og ríða þaðan Múspellssynir.
Surtur ríður fyrst, og fyrir honum og eftir bæði eldur
brennandi. Sverð hans er gott mjög. Af því skín bjartara en
af sólu. En er þeir ríða Bifröst þá brotnar hún, sem fyrr er
sagt. Múspells megir sækja fram á þann völl er Vígríður
heitir. Þar kemur og þá Fenrisúlfur og Miðgarðsormur. Þar er
og þá Loki kominn og Hrymur og með honum allir hrímþursar, en
Loka fylgja allir Heljarsinnar. En Múspellssynir hafa einir
sér fylking, og er sú björt mjög. Völlurinn Vígríður er
hundrað rasta víður á hvern veg.



En er þessi tíðindi verða þá stendur upp Heimdallur og blæs
ákaflega í Gjallarhorn og vekur upp öll guðin og eiga þau
þing saman. Þá ríður Óðinn til Mímisbrunns og tekur ráð af
Mími fyrir sér og sínu liði. Þá skelfur askur Yggdrasils og
enginn hlutur er þá óttalaus á himni eða jörðu.



Æsir hervæða sig og allir einherjar og sækja fram á völluna.
Ríður fyrstur Óðinn með gullhjálm og fagra brynju og geir
sinn er Gungnir heitir. Stefnir hann móti Fenrisúlfi, en Þór
fram á aðra hlið honum, og má hann ekki duga honum, því að
hann hefur fullt fang að berjast við Miðgarðsorm. Freyr berst
móti Surti og verður harður samgangur áður Freyr fellur. Það
verður hans bani er hann missir þess hins góða sverðs er hann
gaf Skírni.



Þá er og laus orðinn hundurinn Garmur er bundinn er fyrir
Gnipahelli. Hann er hið mesta forað. Hann á víg móti Tý og
verður hvor öðrum að bana. Þór ber banaorð af Miðgarðsormi og
stígur þaðan braut níu fet. Þá fellur hann dauður til jarðar
fyrir eitri því er ormurinn blæs á hann. Úlfurinn gleypir
Óðin. Verður það hans bani. En þegar eftir snýst fram Víðar
og stígur öðrum fæti í neðri kjaft úlfsins. Á þeim fæti hefur
hann þann skó er allan aldur hefur verið til safnað. Það eru
bjórar þeir er menn sníða úr skóm sínum fyrir tám eða hæli.
Því skal þeim bjórum braut kasta sá maður er að því vill
hyggja að koma ásunum að liði. Annarri hendi tekur hann hinn
efri kjaft úlfsins og rífur sundur gin hans, og verður það
úlfsins bani.



Loki á orustu við Heimdall, og verður hvor annars bani. Því
næst slyngur Surtur eldi yfir jörðina og brennir allan heim.
Svo er sagt í Völuspá:




Hátt blæs Heimdallur,

horn er á lofti,

mælir Óðinn

við Mímis höfuð.

Skelfur Yggdrasils

askur standandi.

Ymur hið aldna tré,

en jötunn losnar.




Hvað er með ásum?

Hvað er með álfum?

Ymur allur Jötunheimur,

æsir eru á þingi.

Stynja dvergar

fyrir steindurum,

veggbergs vísir.

Vitið ér enn eða hvað?




Hrymur ekur austan

hefist lind fyrir,

snýst Jörmungandur

í jötunmóði.

Ormur knýr unnir,

örn mun hlakka,

slítur nái Niðfölur,

Naglfar losnar.




Kjóll fer austan,

koma munu Múspells

of lög lýðir,

en Loki stýrir.

Þar eru fíflmegir

með freka allir,

þeim er bróðir

Býleists í för.




Surtur fer sunnan

með sviga lævi,

skín af sverði

sól valtíva.

Grjótbjörg gnata,

en gífur rata,

troða halir helveg,

en himinn klofnar.




Þá kemur Hlínar

harmur annar fram,

er Óðinn fer

við úlf vega,

en bani Belja

bjartur að Surti.

Þar mun Friggjar

falla angan.




Gengur Óðins son

við úlf vega,

Víðar of veg

að valdýri.

Lætur hann megi Hveðrungs

mund of standa

hjör til hjarta.

Þá er hefnt föður.




Gengur hinn mæri

mögur Hlóðynjar

neppur af naðri

níðs ókvíðnum.

Munu alir allir

heimstöð ryðja

er af móði drepur

Miðgarðs véur.




Sól mun sortna,

sökkur fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjörnur.

Geisar eimi

og aldurnari,

leikur hár hiti

við himin sjálfan.



Hér segir enn svo:




Vígríður heitir völlur

er finnast vígi að

Surtur og hin svásu guð.

Hundrað rasta

hann er á hverjan veg.

Sá er þeim völlur vitaður."

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.