Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

start

Early North Data Service

Menu Search

Kormáks saga

Data may derive from Dictionary of Old Norse Prose, the National Library of Iceland, the Arnamagnæan Institutes in Iceland and Copenhagen, the Skaldic Project and the Stories for All Time project. These institutions and projects explicitly or implicitly license this data as research data and any further use of this data should credit these organisations and also be licensed as CC BY-SA 4.0.

5.1

Þórveig hét kona. Hún var mjög fjölkunnig. Hún bjó á Steinsstöðum í Miðfirði. Hún átti tvo sonu. Hét hinn eldri Oddur en hinn yngri Guðmundur. Þeir voru hávaðamenn miklir. Oddur venur komur sínar í Tungu til Þorkels og situr á tali við Steingerði. Þorkell gerir sér dátt við þá bræður og eggjar þá að sitja fyrir Kormáki. Oddur kvað sér það ekki ofurefli.

5.2

Það var einhvern dag er Kormákur kom í Tungu. Var Steingerður í stofu og sat á palli. Þórveigarsynir sátu í stofunni og voru búnir að veita Kormáki tilræði er hann gengi inn. En Þorkell hafði sett öðrumegin dyra sverð brugðið en öðrumegin setti Narfi ljá í langorfi. En þá er Kormákur kom að skáladyrum skaraði ofan ljáinn og mætti hann sverðinu og brotnaði í mikið skarð.

5.3

Þá kom Þorkell að og kvað Kormák mart illt gera og var málóði, snýr inn skyndilega og kveður Steingerði af stofunni. Ganga þau út um aðrar dyr og lýkur hann hana í einu útibúri, kvað þau Kormák aldrei sjást skulu. Kormákur gengur inn og bar hann skjótara að en þá varði og varð þeim bilt.

5.4

Kormákur litast um og sér eigi Steingerði en sér þá bræður er þeir struku vopn sín, snýr í brott skyndilega og kvað vísu:

5.5

Hneit við Hrungnis fóta hallvitjöndum stalli, inn var eg Ilmi að finna, engisax, of genginn. Vita skal hitt ef hann hætir handviðris mér grandi né Yggs fyr lið leggjum lítis meira vítis.

5.6

Kormákur finnur eigi Steingerði og kvað vísu:

5.7

Braut hvarf úr sal sæta, sunds erum hugr á Gunni, hvað merkir nú, herkis, höll þverlegar alla? Renndi eg allt hið innra, eirar geirs, að þeiri, Hlín, erum Hörn að finna, hús brágeislum, fúsir.

5.8

Eftir það gekk Kormákur að húsi er Steingerður var í og braut upp húsið og talaði við Steingerði. Hún mælti: ‘Þú breytir óvarlega, sækir til tals við mig því að Þórveigarsynir eru ætlaðir til höfuðs þér.’ Þá kvað Kormákur:

5.9

Sitja sverð og hvetja sín andskotar mínir, eins karls synir, inni, erut þeir banar mínir. En á víðum velli vega tveir að mér einum, þá er sem ær að úlfi óræknum fjör sæki.

5.10

Þar sat Kormákur um daginn. Nú sér Þorkell að þetta ráð er farið er hann hafði stofnað. Nú biður hann Þórveigarsonu að sitja fyrir Kormáki í dal einum fyrir utan garð sinn. Þá mælti Þorkell: ‘Narfi skal fara með ykkur en eg mun vera heima og veita yður lið ef þér þurfið.’

5.11

Um kveldið fer Kormákur í brott og þegar er hann kemur að dalnum sá hann menn þrjá og kvað vísu:

5.12

Sitja menn og meina mér eina Gná steina. Þeir hafa víl að vinna er mér varða Gná borða. Því meira skal eg þeiri, er þeir ala meira öfund um órar göngur, unna sölva Gunni.

5.13

Þá hljópu Þórveigarsynir upp og sóttu að Kormáki lengi. Narfi skrjáði um hið ytra. Þorkell sér heiman að þeim sækist seint og tekur vopn sín. Í því bili kom Steingerður út og sér ætlan föður síns. Tekur hún hann höndum og kemst hann ekki til liðs með þeim bræðrum. Lauk svo því máli að Oddur féll en Guðmundur varð óvígur og dó þó síðan. Eftir þetta fór Kormákur heim en Þorkell sér fyrir þeim bræðrum.

5.14

Litlu síðar fer Kormákur að finna Þórveigu og kveðst ekki vilja byggð hennar þar í firðinum: ‘Skaltu flytja þig í brott að ákveðinni stundu en eg vil allra bóta varna um sonu þína.’

5.15

Þórveig mælti: ‘Það er líkast að því komir þú á leið að eg verði héraðflótta en synir mínir óbættir en því skal eg þér launa að þú skalt Steingerðar aldrei njóta.’

5.16

Kormákur segir: ‘Því muntu ekki ráða, hin vonda kerling.’

6.1

Síðan fer Kormákur að finna Steingerði jafnt sem áður. Og eitt sinn er þau tala um þessa atburði lætur hún ekki illa yfir. Kormákur kvað vísu:

6.2

Sitja menn og meina mér ásjónu þína. Þeir hafa lögðis Loddu linna fætr að vinna. Því að upp skulu allar, ölstafns, áðr eg þér hafna, lýsigrund, í landi, linns, þjóðáar rinna.

6.3

‘Mæl þú eigi svo mikið um,’ segir Steingerður, ‘mart má því bregða.’ Þá kvað Kormákur:

6.4

Hvern mundir þú Hrundar Hlín skapfrömuð línu, líknsýnir mér lúka ljós, þér að ver kjósa?

6.5

Steingerður segir:

6.6

Bróðr, mundi eg blindum, bauglestir, mig festa, yrðu goð sem gerðist góð mér og sköp, Fróða.

6.7

Kormákur segir: ‘Nú kaustu sem vera ætti. Oft hefi eg hingað mínar komur lagðar.’

6.8

Nú biður Steingerður Kormák stunda til föður hennar og fá hennar og fyrir sakir Steingerðar gaf Kormákur Þorkeli góðar gjafir. Eftir þetta eiga margir menn hlut í og þar kom um síðir að Kormákur bað Steingerðar og var hún honum föstnuð og ákveðin brullaupsstefna og stendur nú kyrrt um hríð. Nú fara orð á milli þeirra og verða í nokkurar greinir um fjárfar og svo veik við breytilega að síðan þessum ráðum var ráðið fannst Kormáki fátt um. En það var fyrir þá sök að Þórveig seiddi til að þau skyldu eigi njótast mega.

6.9

Þorkell í Tungu átti son roskinn er Þorkell hét og var kallaður tanngnjóstur. Hann hafði verið utan um stund. Þetta sumar kom hann út og var með föður sínum. Kormákur sækir eigi brullaupið eftir því sem ákveðið var og leið fram stundin. Þetta þykir frændum Steingerðar óvirðing er hann bregður þessum ráðahag og leita sér ráðs.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close