— ed. not skaldic
Not published: do not cite (BjH ch. 32)
The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):
Það er sagt í öðru lagi frá Birni að hann var snemma á fótum
þann morgun og mataðist en Sigmundur húskarl hans var farinn
upp í dal.
Birni þótti illar húsgöngur er hann átti sökótt og þótti
aldrei örvænt á hverri stundu hann þyrfti manna við og var
hann nokkuð brúnvölur og sagði Þórdísi konu sinni að hann
mundi fara á Hvítingshjalla og skera mön á hrossum Þorsteins
áður hann sendi þau vestur. Og þó kvað hann heldur hafa
harkað um draumana um nóttina og kvaðst þó ógjörla vita fyrir
hverju það mun vera. Hann kvaðst mjög oft á þá leið dreyma
sem nú og kvað þó nú mest um vera.
Hún mælti: "Það vildi eg að þú færir hvergi frá húsi í dag og
ertu óvar um þig þar er fjandmenn þínir sitja umhverfum þig.
Eða hvað dreymdi þig?"
"Ekki læt eg drauma ráða förum mínum," segir hann.
"Eigi vildi eg að þú færir frá húsi og værir sem varastur um
þig og hefir það fyrir engum spillt. En mér virðist sem
raunillar hafi verið svefnfararnar í nótt og seg mér hvað
fyrir bar."
En Björn kvað vísu:
Undr er ef eigi bendir,
oft vakir drengr að lengrum,
ógn hef eg fyrða fregna,
framvísar mér dísir,
því að armleggjar orma
Ilmr dagleygjar hilmis
heim úr hverjum draumi
hjálmfaldin býðr skáldi.
"Þetta hefir mig oft dreymt," sagði hann, "og nú með mestu
móti í nótt."
Hún latti hann frá húsi að fara en hann lét ekki letjast.
Húskarlar þeir sem heima voru fóru í skóg að höggva við og
var Björn einn roskinna manna.
Nú býst hann til hrossanna og hefir manskæri mikil á linda og
hött á höfði og skjöld á hlið. Sverð hafði hann í hendi er
Þorfinnur Þvarason átti. Björn var mikill maður vexti og vænn
og freknóttur, rauðskeggjaður, skrúfhár og dapureygður og
manna best vígur. Sveinn fimmtán vetra gamall fór með honum.
Og er þeir gengu úr túni kvað Björn vísu:
Út geng eg með lið lítið,
lítt sé eg hers við víti.
Sverð fylgir menmyrði
mítt og skjöldr hinn hvíti.
En fyr einum runni
ægis dýrs of Mýrar,
vöndr skal hjalts úr hendi
hrökkva, fyrr en eg stökkva.
Þeir fóru þá götu er liggur til Hvítingshjalla. En þeir eiga
að fara yfir Hítará, skammt frá því er hún fellur úr vatninu.
Og er þeir hafa farið um hríð þá sér sveinninn sex menn fara
í móti þeim frá stakkgarði af Hvítingshjalla.
Björn spyr sveininn ef hann sæi hrossin á Hjöllunum, kvað
auðsæ vera munu fyrir litar sakir. Hann kvaðst sjá hrossin og
svo sex menn fara í mót þeim.
Björn kvað þá enn vísu:
Tveir erum, vörðr, en vorum,
vopn-Eirar, vel fleiri.
Oft var skáld und skildi
skólkinnis að jólum.
Enn hraustgeði á hausti,
hoddlestis, kom vestan,
sveit vara seggja lítil
snarfengs, með lið drengja.
Björn hafði kyrtil góðan og var í hosum og vafið silkiræmu um
fót sér, þeirri er hann hafði skipt um við hinn helga Ólaf
konung. Hann brá sverðinu er Þorfinnur Þvarason átti og
mælti: "Illt sverð á hér góður drengur," segir hann.
Kálfur sér þá brátt þar sem hann var kominn og heldur eftir
þeim og mælti: "Eigi er minni von," segir hann, "að skipti
með oss gæfunni. Þeir þóttust mig hafa í hættu settan en eg
hygg að eg veiði nú þann björn er vér vildum allir veiða."
"Skammt eiga þeir nú hingað Björn," segir sveinninn, "því að
þeir fara hart."
Björn svarar: "Því auðveldara mun okkur að taka hrossin sem
fleiri beina að."
Sveinninn mælti: "Ekki munu þetta friðarmenn vera. Þeir eru
allir með vopnum. Og enn sé eg fleiri menn því að sumir fara
eftir okkur og enn vopnaðir."
"Eigi skyldir þú of mikið um gera," segir Björn. "Kann vera
að það séu réttamenn."
Sveinninn mælti: "Eg sé enn fleiri menn og fara frá Hólmi. Og
er okkur það eitt ráð að snúa til Klifsdals og förum síðan
Hellisdal og forðum okkur."
Björn mælti: "Ekki hefi eg enn eltur verið hér til og svo mun
enn og mun eg eigi aftur hverfa. Förum eftir Klifsandi til
Klifsjörva og gjarnan vildi eg fara til Grásteins hins mikla
ef við mættum þangað komast."
"Eigi má eg það vita," segir sveinninn, "hve okkur má það
endast því að menn sækja að okkur öllum megin. Og sé eg það
gjörla að sex eru hvar saman þótt sumir eigi lengra til okkar
en sumir. Og sé eg nú alls eigi færri menn en fjóra og
tuttugu."
Björn spyr: "Hvern veg er þeim mönnum varið er okkur eru
næstir?"
Sveinninn segir og þóttist Björn kenna Kálf að frásögn hans.
Kálfur var maður mikill og svartur og átti skammt til þeirra
á bak þeim er Kolli og synir Eiðs komu fyrir þá. Dálkur fer
að frá Hólmi og er sýnu first þeim og þeir er honum fylgja.
Björn mælti við sveininn: "Far þú nú upp í hjallann eftir
hrossunum en eg mun hér bíða. Ekki mun stoða að fara lengra."
Nú settist Björn niður en sveinninn fór að taka hrossin og
vildi víkja og mátti eigi því að þá hafði tekist fundur
þeirra.
Þeir koma fyrst að Birni, Kálfur við sétta mann, Kolli og
synir Eiðs með honum við sex menn. Þorvaldur Eiðsson skýtur
spjóti að Birni þegar er hann nær til hans. Björn tók spjótið
á lofti og sendi aftur til eiganda. Það kom á Þorvald miðjan
og féll hann dauður til jarðar. Þeir höfðu komist á milli
hans og Grásteins svo að Björn komst eigi þangað. Þórður
vildi hefna bróður síns og hjó til Bjarnar mikið högg. En
Björn hélt á skildinum svo að handleggur hans var í
mundriðanum og kom höggið á skjöldinn og varð svo mikið að
handleggur Bjarnar gekk í sundur og féll skjöldurinn niður.
Þá þreif Björn sporð skjaldarins hinni hendinni og rak í
höfuð Þórði svo að hann fékk þegar bana. En sumir menn segja
að hann legði hann með söxunum til bana. Kolli sótti Björn
fast, nær í mesta lagi einna manna í sífellu, þótt vér kunnum
eigi að greina hvert sárafar hann veitti honum.
Kálfur mælti, kvað honum nú fyrir allt eitt koma þótt hann
felldi nokkura menn og kvað hann skyldu nú eigi undan ganga
"er oss nú eigi mannfátt," segir hann.
Sumir mæltu að slá skyldi hring um Björn og varðveita hann að
hann komist hvergi í brott og bíða Þórðar Kolbeinssonar að
vega að honum til lykta. Og meðan þeir ræddust þetta við þá
leysti Björn manskæri af linda sér og voru þau nýhvött er
hann fór heiman, bæði mikil og biturleg.
Nú kom Dálkur til með sex menn og vill þegar sækja að Birni
því að hann var hraustur karlmaður og þóttist hann varla án
hólmsök við Björn er hann átti sonar síns að hefna. En Björn
bregður sverðinu Þorfinns er hann hafði heiman haft og höggur
á fót Dálki svo hart að fóturinn brotnaði en eigi beit og
varð Dálkur óvígur og fluttur á brott þangað sem honum var
óhætt.
Og því næst kom Þórður Kolbeinsson. Og er Björn sá hann þá
mælti hann: "Seinn til slíks móts lítill sveinn."
"Sá skal þér þó nú nær standa í dag," segir Þórður, "og
höggva þig klækishögg."
"Þau ein muntu höggva," segir Björn, "meðan þú lifir."
Þórði varð mismælt og vildi hann sagt hafa að sá skyldi hann
höggva klámhöggi þann dag. Björn grípur nú skærin því að hann
veit að sverðið dugir ekki og hleypur að Þórði og ætlar að
reka á honum skærin. Þórður veikst undan en fyrir varð
húskarl Þórðar er Grímur hét og fékk þegar bana. Og í því
bili hjó Kálfur til Bjarnar og veitti honum mikið sár og féll
Björn nú svo að hann stóð á knjám og varðist með skærunum af
mikilli hugprýði, því að hann var hinn mesti fullhugi sem oft
höfðu raunir á orðið, og veitti þeim mörg sár er hann sóttu.
Þeir sóttu hann nú svo fast og engir meir en Kolli.
Björn mælti: "Fast sækir þú mig í dag Kolli," segir Björn.
"Eigi veit eg hverjum í er að þyrma," segir hann.
"Svo er og," segir Björn. "Móðir þín mun þetta fyrir þig hafa
lagt að þú skyldi mér harðasta atgöngu veita. En sjá þykist
eg að annað mun þér betur gefið en ættvísin."
Kolli segir: "Eigi þykir mér þú það snemma sagt hafa ef mér
er nokkur vandi á við þig." Og þegar gengur Kolli brott og
hættir aðsókninni.
Björn varðist mjög lengi með skærunum svo að hann stóð á
knjám. Og allir undruðust þeir hví hann mátti slíka vörn
veita, næsta vopnlaus maður, svo margir sem þeir sóttu hann
og þóttust þó allir hafa fullleiksa er honum urðu næstir.
Nú er það sagt að Þórður hjó til Bjarnar og beit af honum
þjóhnappana og fellur Björn þá. Þórður vill þá eigi láta
höggva á milli og höggur af Birni höfuð í öðru höggi og
gengur á milli bols og höfuðs og þá kvað Þórður vísu:
Láskat, snarr að snerru,
segg þann bitu eggjar,
hinn er fyr heiði sunnan
hugprýði mér frýði,
að, morðvandar, myndag,
meiðs hlutum rán af beiði,
bitu þann fyr sök sanna
sverð, hans bani verða.
Þórður tók höfuð Bjarnar og batt við ólar sér, lét þar hanga
við söðul sinn.
Kálfur kvaðst vilja að þeir kæmu í Hólm og lýstu þar víginu
og lést vilja færa þeim men er Björn hafði haft á sér.
Dálkur svarar og kvað það óskylt vera og kappsamlegt, kvað
það betur sóma að sýna sig í yfirbótum við frændur Bjarnar
eftir þetta verk heldur en auka vansemd við þá.
Þórður lagði þar hvortgi til. Kálfur reið þegar af vettvangi.
Og er þeir riðu í brott og voru komnir ofan yfir Klifsand þá
flugu móti þeim hrafnar nokkurir og þá orti Þórður vísu
þessa:
Hvert stefnið þér, hrafnar,
hart með flokk hinn svarta?
Farið ljóst matar leita
landnorðr frá Klifsandi.
Þar liggr Björn en Birni
blóðgögl of skör stóðu.
Þollr hné hjálms á hjalla
Hvítings ofar lítlu.
Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.
Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.
The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.
This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.
This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.