— ed. not skaldic
Not published: do not cite (Hœns ch. 13)
The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):
Það varð til tíðinda að Hænsna-Þórir hvarf brott úr
héraðinu við tólfta mann þegar hann spurði hverjir í málið
voru komnir og fréttist alls eigi til hans.
Oddur safnar nú liði um dalina, Reykjardal hvorntveggja og
Skorradal, og um allar sveitir fyrir sunnan Hvítá og þó hafði
hann mart úr öðrum sveitum.
Arngrímur goði safnaði mönnum um Þverárhlíð og Norðurárdal að
sumum hluta.
Þorkell trefill safnaði mönnum hið neðra um Mýrar og
Stafholtstungur og suma Norðurdæla hefir hann með sér því að
Helgi bróðir hans bjó í Hvammi og hefir hann hann með sér.
Nú safnar Þórður gellir liði vestan og hefir eigi mart lið.
Hittast nú þessir allir er í voru málinu og hafa alls tvö
hundruð manna, ríða nú ofan fyrir utan Norðurá og yfir á að
Eyjavaði fyrir ofan Stafholt og ætla yfir Hvítá þar sem
heitir Þrælastraumur.
Þá sjá þeir mannaferð mikla fyrir sunnan ána. Er þar
Tungu-Oddur og nær fjögur hundruð manna. Gæða nú ferðina og
vilja fyrr koma til vaðsins. Hittast nú við ána og hlaupa
þeir Oddur af baki og verja vaðið en þeim Þórði gengur
ógreitt framreiðin og vildu gjarna komast á þingið. Slær nú í
bardaga og verða þegar áverkar. Féllu fjórir menn af Þórði.
Þar féll Þórólfur refur bróðir Álfs úr Dölum, virðulegur
maður, og hverfa nú frá við svo búið. Einn maður féll af Oddi
en þrír urðu mjög sárir.
Þórður snýr nú málinu til alþingis. Þeir ríða nú heim vestur
og þykir mönnum mjög hallast hafa metorð vestanmanna.
Nú ríður Oddur á þingið. Hann sendi heim þræla sína með
hross. Jórunn kona hans spurði tíðinda er þeir komu heim.
Þeir kváðust engi segja kunna önnur en þau að sá maður var
einn kominn vestan úr Breiðafirði að svara kunni Tungu-Oddi
"og var hans hljómur og rödd sem griðungur gelldi."
Hún kvað það engi tíðindi þótt honum væri svarað sem öðrum
manni en kvað þó það hafa gerst að tíðindum að eigi væri
líklegra til.
"Var þar og bardagi," sögðu þeir, "og féllu fimm menn alls en
margir urðu sárir."
En áður gátu þeir þess að engu.
Nú líður þingið og verður þar eigi til tíðinda. En er þeir
mágar koma heim vestur skipta þeir bústöðum. Fer Gunnar í
Örnólfsdal en Hersteinn tekur Gunnarsstaði. Eftir þetta lætur
Gunnar færa til sín vestan við þann allan sem Örn austmaður
hafði átt og flytja heim í Örnólfsdal. Tekur hann til síðan
og húsar upp bæinn í annað sinn því að Gunnar var allra manna
hagastur. Hann var og um allt atgervismaður og manna best
vígur og hinn vaskasti í öllu.
Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.
Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.
The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.
This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.
This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.