Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Ljósv ch. 30

Ljósvetninga saga 30 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Ljósv ch. 30)

Anonymous íslendingasögurLjósvetninga saga
293031

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Nú er að segja frá Eyjólfi Guðmundarsyni á Möðruvöllum að
hann undi mjög illa við það að eigi komu mannhefndir eftir
víg Koðráns bróður hans. Gerði hann för sína heiman og voru
fjórir tigir saman. Þeir fóru norður í Flateyjardal á
Brettingsstaði. Þar bjó Þórarinn Höskuldsson bróðir Þorvarðs.
Þar var Einar Arnórsson með honum og Einar Járn-Skeggjason.



Forni hét maður er farinn var til rétta en sá maður var fyrir
búi hans er Þorgeir hét er bjó að Þverá í Fnjóskadal. En
Ketill hét sá maður er farinn var og til rétta og þeir gistu
hjá Eyjólfur og höfðu þar góðan beina.



Þá mælti bóndi: "Hvert er nú ætluð förin?"



Eyjólfur Guðmundarson svarar: "Frek gerast nú boðin vor
Eyfirðinga og þarf til fanga að ætla og er til Flateyjar
förin eftir fangi."



Bóndi svarar: "Þó skal nú mjög skipa virðingamönnum í för
þessa."



Eyjólfur svarar: "Viðurkvæmilegt er að vér förum allir
frændur."



Engan höfðu menn grun á um ferð hans frá því er allir voru
sáttir. Fóru þeir Eyjólfur nú og komu til Þórarins og gengu
þar inn í hús og báru þegar vopn á hann og vógu hann og tvo
menn aðra. Og er þeir riðu ofan yfir Vöðlaheiði frá víginu þá
ræddu þeir um atburðinn og hrapaði hestur undir Eyjólfi og
féll hann af baki. Og er hann vildi upp standa varð honum
stirður fóturinn svo að hann gekk haltur. Og er menn riðu til
alþingis þá bauð hann engar sættir. En svo var honum fóturinn
stirður að hann mátti eigi ganga og reið hann í milli búða.



Þeir fundust Finni og Eyjólfur. Finni spurði hversu hann
hafði fengið meinið. Hann segir honum það.



Finni mælti þá: "Það mundi eg ætla að þar mundir þú eigi hafa
getað staðist fylgjur þeirra Þorvarðs og frænda hans er
fjandskap leggja á þig."



Eyjólfur mælti: "Ætlar þú að þeirra fylgjur séu meiri fyrir
sér en mínar og minna frænda?"



Finni mælti: "Ekki kveð eg að því. Þó er það reynt ef vér
spyrjum um för Þorvarðs."



Hrólfur hét sonur Þorkels Tjörvasonar Þorgeirssonar frá
Ljósavatni. Hann fór með Ljósvetningagoðorð á þinginu. Og var
leitað um sættir. Eyjólfur kvaðst óráðinn til að bæta fé. En
þeir höfðu búið málið á hendur Eyjólfi með hálfan hinn fimmta
tug manna. Hrólfur bað sér liðs. Og er hann fann Þorkel
Geitisson mælti hann slíkum málum við hann.



Hann svarar: "Þú mælir sannara en eigi nenni eg að ganga í
móti Eyjólfi."



Síðan hitti Hrólfur Skegg-Brodda og mælti: "Flestum mun nú
kunnigt mál mitt. En hér virða menn meir afla Eyjólfs en
sannsýni. Verður mér nú reikult um þingvöllinn en fæstir líta
á mína nauðsyn."



Skegg-Broddi svarar: "Eg ætla þig gengið hafa liðsbón en
lítið að sóst og engan tek eg af um liðveislu við þig. En
haldast munu réttindi þau er mönnum virðast hér að. En ef
Eyjólfur vill engu bæta enda fáir þú engum málum fram komið
þá er laust með okkur."



Hrólfur mælti: "Eigi mun eg þig lengi þæfa um liðsbeina en
segja mun eg þér ætlan mína. Ef eg má eigi málið fram hafa
fyrir fjölmenni Eyjólfs mun eg bjóða honum hólmgöngu hvort er
hann vill við fjórða mann eða við eigumst tveir við. Vildi eg
þá til kjósa Einarana tvo og Þórodd hjálm er mér eru falastir
til þungs hlutar. En eg ætla að fá í móti starfsmenn og
ræningja."



Skegg-Broddi mælti: "Þú ert hetja mikil og ertu eigi
ráðalaus. Haltu nú þessu fram en eg skal til sjá með þér. Og
munu menn ráðast í móti þeim nöfnum ef þarf. Og má það verða
að þú skiljir eigi við með óvirðingu."



Síðan hitti Skegg-Broddi Gelli vin sinn og sagði honum þetta.



Hann svarar: "Illa læt eg yfir því er hólmgöngur haldast uppi
og er það heiðinna manna."



Skegg-Broddi mælti: "Hvers var að von annars en slíks ef
maður býr allilla til sitt mál, að menn muni það illu gjalda,
og drepur saklausa menn á gervar sættir?"



Þetta var sagt Eyjólfi.



Hann svarar: "Fjandmaður vor gerist þú nú Skegg-Broddi. Hefir
þú nú tveim sinnum brugðist mér."



Skegg-Broddi svarar: "Eg firrði þig og næst á Hegranessþingi
vandræðum sem von var að verða mundi ef þú sektir Þorvarð og
frændur hans. Þá drapstu bróður hans og viltu það nú engu
bæta. Eða hvar ætlar þú til? Eru nú tveir kostir fyrir
höndum, að láta okkur Gelli ráða og dæma eða hólmgöngur munu
fram fara."



Eyjólfur kvaðst ætla að betra mundi að bæta. Þá áttu margir
hlut í og kom þar að manngjöld skyldi lúka og galst það fé
allt.



Nú er þeir Þorvarður og frændur hans komu sunnan frá Róm og í
Saxland þá hittu þeir Norðmenn og sögðu þeir þeim víg
Þórarins er orðið hafði um haustið.



Þorvarður mælti: "Langt er nú öxanna vorra í milli og þeirra
Möðruvellinga. Og það vilja þeir enn að þær takist til ef eg
kem til Íslands. Og verði nú sem Pétur postuli vill. Ætla eg
þó að betra væri að eg kæmi eigi út aftur."



Segja það menn að fáar mílur gekk hann þaðan frá áður hann
missti auga síns af verk en andaðist síðan.



Eftir það fór Brandur til Haralds konungs Sigurðarsonar og
var með honum og svo Hallur Ótryggsson. Hann var með honum
austur í Gautlandi er Haraldur konungur barðist við Hákon jarl
Ívarsson. Og er Haraldur konungur vildi á brott þá fraus skip
hans inni og hjuggu menn þá ísinn milli skipanna.



Þá mælti Haraldur konungur: "Engi höggur sterklegar ísinn en
hann Koðránsbani."



Maður er nefndur Þormóður og var Ásgeirsson, frændi
Möðruvellinga. Hann var á skipi Magnúss konungssonar og var
nýkominn af Íslandi. Sat hann um Hall. Og í því er konungur
nefndi Koðránsbana þá hljóp Þormóður að Halli og hjó hann
banahögg og hljóp síðan á skip Magnúss konungssonar. Haraldur
konungur varð reiður mjög og bað leggja að þeim. Og er þeir
þröngdust að Þormóði þá brast ísinn undan þeim og drukknuðu
margir menn. En Magnús konungsson komst á brott en Þormóði
kom hann af landi og létti hann eigi fyrr en hann kom út til
Miklagarðs og gekk þar á mála. En þeir konungur og sonur hans
sættust síðan.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.