Cookies on our website

We use cookies on this website, mainly to provide a secure browsing experience but also to collect statistics on how the website is used. You can find out more about the cookies we set, the information we store and how we use it on the cookies page.

Continue

skaldic

Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages

Menu Search

Eg ch. 54

Egils saga Skalla-Grímssonar 54 — ed. not skaldic

Not published: do not cite (Eg ch. 54)

Anonymous íslendingasögurEgils saga Skalla-Grímssonar
535455

sources

Text is based on reconstruction from the base text and variant apparatus and may contain alternative spellings and other normalisations not visible in the manuscript text. Transcriptions may not have been checked and should not be cited.

text and translation

The new edition is either unpublished or unavailable. The following is taken from an old edition (Skj where relevant):



Aðalsteinn konungur hafði verið áður hina næstu nótt í borg
þeirri, er fyrr var frá sagt, og þar spurði hann, að bardagi
hafði verið á heiðinni, bjóst þá þegar og allur herinn og
sótti norður á heiðina; spurði þá öll tíðindi glögglega,
hvernig orusta sú hafði farið. Komu þá til fundar við konung
þeir bræður, Þórólfur og Egill; þakkaði hann þeim vel
framgöngu sína og sigur þann, er þeir höfðu unnið, hét þeim
vináttu sinni fullkominni; dvöldust þeir þar allir samt um
nóttina.



Aðalsteinn konungur vakti upp her sinn þegar um morguninn
árdegis; hann átti tal við höfðingja sína og sagði, hver
skipun vera skyldi fyrir liði hans; skipaði hann fylking sína
fyrst, og þá setti hann í brjósti þeirrar fylkingar sveitir
þær, er snarpastar voru. Þá mælti hann, að fyrir því liði
skyldi vera Egill, -- "en Þórólfur," sagði hann, "skal vera
með liði sínu og öðru því liði, er eg set þar; skal sú vera
önnur fylking í liði voru, er hann skal vera höfðingi fyrir,
því að Skotar eru jafnan lausir í fylkingu, hlaupa þeir til
og frá og koma í ýmsum stöðum fram; verða þeir oft
skeinusamir, ef menn varast eigi, en eru lausir á velli, ef
við þeim er horft."



Egill svaraði konungi: "Ekki vil eg, að við Þórólfur
skiljumst í orustu, en vel þykir mér, að okkur sé þar skipað,
er mest þykir þurfa og harðast er fyrir."



Þórólfur mælti: "Látum við konung ráða, hvar hann vill okkur
skipa; veitum honum svo, að honum líki; mun eg vera heldur,
ef þú vilt, þar er þér er skipað."



Egill segir: "Þér munuð nú ráða, en þessa skiptis mun eg oft
iðrast."



Gengu menn þá í fylkingar, svo sem konungur hafði skipað, og
voru sett upp merki; stóð konungs fylking á víðlendið til
árinnar, en Þórólfs fylking fór hið efra með skóginum.



Ólafur konungur tók þá að fylkja liði sínu, þá er hann sá, að
Aðalsteinn hafði fylkt; hann gerði og tvær fylkingar, og lét
hann fara sitt merki og þá fylking, er hann réð sjálfur
fyrir, móti Aðalsteini konungi og hans fylking. Höfðu þá
hvorirtveggju her svo mikinn, að engi var munur, hvorir
fjölmennri voru, en önnur fylking Ólafs konungs fór nær
skóginum móti liði því, er Þórólfur réð fyrir; voru þar
höfðingjar jarlar skoskir; voru það Skotar flest, og var það
fjölmenni mikið.



Síðan gangast á fylkingar, og varð þar brátt orusta mikil;
Þórólfur sótti fram hart og lét bera merki sitt fram með
skóginum og ætlaði þar svo fram að ganga, að hann kæmi í opna
skjöldu konungsfylkingunni; höfðu þeir skjölduna fyrir sér,
en skógurinn var til hægra vegs; létu þeir hann þar hlífa.
Þórólfur gekk svo fram, að fáir voru menn hans fyrir honum,
en þá er hann varði minnst, þá hlaupa þar úr skóginum Aðils
jarl og sveit sú, er honum fylgdi; brugðu þegar mörgum kesjum
senn á Þórólfi, og féll hann þar við skóginn, en Þorfinnur,
er merkið bar, hopaði aftur, þar er liðið stóð þykkra, en
Aðils sótti þá að þeim, og var þar þá orusta mikil. Æptu
Skotar þá siguróp, er þeir höfðu fellt höfðingjann.



En er Egill heyrði óp það og sá, að merki Þórólfs fór á hæl,
þá þóttist hann vita, að Þórólfur myndi eigi sjálfur fylgja.
Síðan hleypur hann til þangað fram í milli fylkinganna; hann
varð skjótt var þeirra tíðinda, er þar voru orðin, þegar hann
fann sína menn; hann eggjar þá liðið mjög til framgöngu; var
hann fremstur í brjóstinu; hann hafði sverðið Naður í hendi.
Hann sótti þá fram og hjó til beggja handa og felldi marga
menn; Þorfinnur bar merkið þegar eftir honum, en annað lið
fylgdi merkinu; var þar hin snarpasta orusta. Egill gekk
fram, til þess er hann mætti Aðilsi jarli; áttust þeir fá
högg við, áður Aðils jarl féll og margt manna um hann, en
eftir fall hans, þá flýði lið það, er honum hafði fylgt, en
Egill og hans lið fylgdu þeim og drápu allt það, er þeir
náðu, því að ekki þurfti þá griða að biðja. En jarlar þeir
hinir skosku stóðu þá ekki lengi, þegar er þeir sáu, að aðrir
flýðu þeirra félagar; tóku þegar á rás undan.



En þeir Egill stefndu þá þar til, er var konungs fylkingin,
og komu þá í opna skjöldu og gerðu þar brátt mikið mannfall.
Riðlaðist þá fylkingin og losnaði öll; flýðu þá margir af
Ólafs mönnum, en víkingar æptu þá siguróp. En er Aðalsteinn
konungur þóttist finna, að rofna tók fylking Ólafs konungs,
þá eggjaði hann lið sitt og lét fram bera merki; gerði þá
atgöngu harða, svo að hrökk fyrir lið Ólafs og gerðist
allmikið mannfall. Féll þar Ólafur konungur og mestur hluti
liðs þess, er Ólafur hafði haft, því að þeir, er á flótta
snerust, voru allir drepnir, er náð varð; fékk Aðalsteinn
konungur þar allmikinn sigur.

Close

Log in

This service is only available to members of the relevant projects, and to purchasers of the skaldic volumes published by Brepols.
This service uses cookies. By logging in you agree to the use of cookies on your browser.

Close

Stanza/chapter/text segment

Use the buttons at the top of the page to navigate between stanzas in a poem.

Information tab

Interactive tab

The text and translation are given here, with buttons to toggle whether the text is shown in the verse order or prose word order. Clicking on indiviudal words gives dictionary links, variant readings, kennings and notes, where relevant.

Full text tab

This is the text of the edition in a similar format to how the edition appears in the printed volumes.

Chapter/text segment

This view is also used for chapters and other text segments. Not all the headings shown are relevant to such sections.